Iðan fræðslu­setur

Hlutverk Iðunnar er að sjá fyrirtækjum og einstaklingum fyrir nýrri þekkingu og færni eftir þörfum og aðstæðum á hverjum tíma. Í fjölbreyttu fræðslustarfi Iðunnar er lögð áhersla á stuðning við starfsþróun félagsfólks og framþróun íslensks iðnaðar. Iðan sinnir símenntun starfsmanna í bílgreinum, bygginga- og mannvirkjagreinum, málm- og véltæknigreinum, prent- og miðlunargreinum og matvæla- og veitingagreinum. 

Stjórn og stjórnarteymi Iðunnar

Stjórn Iðunnar skipa: Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir formaður, Georg Páll Skúlason varaformaður, Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, Eyjólfur Bjarnason, Halldór Arnar Guðmundsson, Jóhanna Klara Stefánsdóttir, Hilmar Harðarson, Svanur Karl Grjetarsson, Jón Bjarni Jónsson, Sverrir Gunnarsson. Gunnar Valur Sveinsson er áheyrnarfulltrúi og varamaður. Stjórn Iðunnar fundaði 8 sinnum.
Stjórnarteymi Iðunnar skipa þau Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, Georg Páll Skúlason, Óskar Hafnfjörð Gunnarsson og Eyjólfur Bjarnason, auk Vilborgar Helgu Harðardóttur framkvæmdastjóra og Brynju Blomsterberg fjármálastjóra og fundaði 9 sinnum á liðnu starfsári. 

Stjórn Iðunnar. Á myndina vantar Sverri Gunnarsson en María Jóna Magnúsdóttir hætti í stjórn og Sverrir kallaður inn í hennar stað á starfsárinu.

Stjórn Iðunnar. Á myndina vantar Sverri Gunnarsson en María Jóna Magnúsdóttir hætti í stjórn og Sverrir kallaður inn í hennar stað á starfsárinu.

Ágrip stjórn­ar­for­manns

Iðan er eitt best geymda leyndarmál iðnaðarins. Sterkur bakhjarl sem eflir færni og hæfni starfsfólks um allt land og skapar þannig aukin verðmæti fyrir atvinnulífið og samfélagið allt. Hlutverk Iðunnar er að tryggja sí- og endurmenntun sem heldur íslenskum iðnaði í fremstu röð.

Á síðasta ári voru tímamót í sögu félagsins. Nýr framkvæmdastjóri tók við og hefur áhersla verið lögð á að skerpa á stefnu og ferlum með það að markmiði að mæta félagsmönnum og starfsfólki betur í símenntun og hæfniþróun. Þar með leggur Iðan sitt af mörkum til að mæta skorti á iðn- og tæknimenntuðu fólki, sem er verðmætara en nokkru sinni fyrr. Á næstu misserum styrkjum við starfsemina enn frekar með því að afla markvisst upplýsinga um færniþarfir beint frá félagsmönnum sjálfum. Með því eflum við þjónustuna, tryggjum að námsframboðið sé í takt við raunverulegar þarfir og efnum til samtals um framtíð iðn- og tæknimenntunar á Íslandi. Stjórn og starfsfólk eru staðráðin í að halda áfram á þessari vegferð, vinna með félagsmönnum og leiðtogum iðnaðarins þar sem félagsmenn eru ætíð í forgrunni. Framtíð Iðunnar er björt og hlutverk hennar sem lykilpúsl í menntun iðnaðarins skiptir meira máli en nokkru sinni áður.

Hulda Birna Kjærneststed Baldursdóttir
Sérfræðingur  í mennta- og mannauðsmálum og stjórnarformaður Iðunnar fræðsluseturs.

Mannauður

Iðan leggur áherslu á að ráða, efla og halda í hæft starfsfólk. Því til stuðnings er félagið með skilgreinda fræðslu-, jafnréttis- og geðheilsustefnu sem og áætlun gegn einelti og áreitni á vinnustað. Iðan hefur hlotið jafnlaunastaðfestingu og leggur áherslu á að fylgjast með og vinna að stöðugum umbótum á starfsumhverfinu. Í þeim tilgangi eru haldin regluleg starfsmannasamtöl sem og gerðar kannanir meðal starfsfólks.