Fræðsla
Gæði náms og þjónustu eru í brennidepli og félagsfólk okkar er í forgrunni þegar kemur að þróun námskeiða og fræðslu. Á liðnu ári var lögð áhersla á að dýpka samtalið við félagsfólk okkar og líta til framtíðar og þeirrar þekkingar sem þarf að byggja upp í þeim stórstígu tækniframförum sem eiga sér stað í iðnaði.
Tölfræði námskeiða

Bílgreinar
Rafbílanámskeið njóta áfram góðrar aðsóknar og eru orðin kjarni námskeiðsframboðs á bílgreinasviði. Þörfin fyrir góða þekkingu á rafmagni í tengslum við rafmagnsbíla fer sífellt vaxandi, og því er einnig lögð aukin áhersla á almenn rafmagnsnámskeið.

Bygginga- og mannvirkjagreinar
Námskeið um gervigreind og notkun hennar í byggingariðnaði hafa verið mjög vel sótt og greinilegt að iðnaðarmenn vilja fylgjast með hinni öru þróun sem er á þessu sviði.

Matvæla- og veitingagreinar
Á árinu voru nokkrir erlendir sérfræðingar fengnir til landsins til að halda námskeið í matvæla- og veitingagreinum. Heimsmeistarinn í „flair“ Michael Moreni, hélt námskeið í „flair“ barmennsku og Serge Guillou var með bartækninámskeið sem hugsað var fyrir barþjóna og allt áhugafólk um kokteila-keppnir. Þá var eftirréttameistarinn og Netflix stjarnan Juan Gutierrez með tvö masterclass námskeið á árinu. Annars vegar þriggja daga námskeið þar sem eftirréttir og desertkökur voru í aðalhlutverki og hins vegar tveggja daga súkkulaði og konfekt námskeið.

Málm- og véltæknigreinar
Starfsárið 2024-2025 einkenndist af markvissum aðgerðum til að mæta fræðsluþörf félagsmanna. Unnið var út frá upplýsingum úr heimsóknum og samtölum síðasta starfsárs. Á því ári var áherslan lögð á heimsóknir og samtöl í þeim tilgangi að skilgreina þarfir félagsmanna.

Prent- og miðlunargreinar
Starfsárið 2024–2025 einkenndist af breytingum á áherslum í símenntun og umbreytingu á grunnnámi í prent- og miðlunargreinum. GRAFÍA og starfsgreinahópur fyrirtækja í prentiðnaði innan Samtaka iðnaðarins hafa unnið að sameiningu löggiltra iðngreina í prentsmíði, prentun og bókbandi undir eina löggilta iðngrein, prentsmíði. Leiðtogi prent- og miðlunargreina hefur gegnt hlutverki tengiliðar milli skóla og atvinnulífs síðustu tvö ár í þessum breytingum, sem hafa átt sér langan aðdraganda.

Nýr vefur
Nýr vefur og fræðsluumsjónarkerfi var settur í loftið í apríl 2025. Markmiðið var að hanna og smíða aðgengilegan, nútímalegan og þjónustumiðaðan vef sem endurspeglar þá fjölbreyttu starfsemi sem Iðan fræðslusetur sinnir. Verkefnið var unnið í mikilli samvinnu með gagnvirkri nálgun þar sem félagsmenn og starfsfólk Iðunnar tók virkan þátt í mótun og þróun á vefnum. Áhersla var lögð á að vefurinn yrði ekki aðeins fallegur heldur myndi styðja við innri ferla og bæta þjónustuupplifun allra notenda. Fjöldi ósýnilegra handvirkra ferla hafa verið sjálfvirknivæddir og þar með einfaldað starfsemi Iðunnar og minnkað villuhættu.
Fyrirtækjaþjónusta
Fyrirtækjaþjónustan hefur skapað sér ákveðinn sess hjá Iðunni. Í henni felst að leiðtogar greinanna heimsækja fyrirtæki á sínu sviði.
Í heimsóknunum er meðal annars farið yfir námsframboð Iðunnar, boðið upp á sérsniðin námskeið, möguleikar sem bjóðast með „Fræðslustjóra að láni” eru kynntir og fjallað um raunfærnimat. Á liðnu starfsári fóru leiðtogar greinanna samtals í 71 fyrirtækjaheimsókn.
Náms- og starfsráðgjafar Iðunnar taka oft þátt í heimsóknum og kynningum af þessu tagi til þess að kynna ítarlega þá þjónustu og ráðgjöf sem stendur félagsfólki til boða. Alls voru fimm umsóknir um fræðslustjóra að láni afgreiddar á starfsárinu. Heildarupphæð styrkja var 1.514.274 kr.
Fræðslustyrkir
Iðan fræðslusetur er hluti af Áttinni en þar eiga fyrirtæki sem greiða endurmenntunargjöld til Iðunnar, og eru í skilum, rétt á að sækja um fræðslustyrk vegna starfstengdra námskeiða. Styrkur Iðunnar til fyrir- tækis vegna fræðslu, getur að hámarki orðið 20% af greiddum iðgjöldum til Iðunnar á liðnu almanaksári. Að jafnaði nemur styrkur Iðunar 65% af kostnaði við hverja umsókn. Umsóknir fara allar í gegnum Áttina. Allar frekari upplýsingar um fræðslustyrkina má finna á vef Iðunnar og Áttarinnar.
Alls voru 240 umsóknir um fræðslustyrki afgreiddar á starfsárinu. Heildarupphæð styrkja var 11.910.586 kr.
Samstarf og stórir viðburðir
Mikil áhersla er lögð á markaðs- og kynningarstarf innan Iðunnar sem þjónar félagsfólki og íslenskum iðnaði. Iðan styður dyggilega við verkefni og viðburði sem stuðla að framþróun þekkingar í þeim iðngreinum sem hún þjónar.
Georg Páll Skúlason formaður Verkiðnar og Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir á Mín framtíð 2025.Mín framtíð 2025
Iðan fræðslusetur sá um verkefnastjórn Minnar framtíðar 2025, Íslandsmóts iðn- og verkgreina sem var haldið í Laugardalshöll dagana 12. - 15. mars. Mín framtíð er stórviðburður sem er haldinn annað hvert ár. Keppt var í 19 faggreinum og glímdu keppendur við raunveruleg og krefjandi verkefni sem kalla fram fjölbreytta hæfni, skapandi hugsun og framúrskarandi fagmennsku. Samhliða mótinu er haldin framhaldsskólakynning og ýmsar greinar kynntu ungu fólki námsmöguleika í iðnaði. Keppendur voru 140 talsins, 20 sýningargreinar kynntu nám og 26 framhaldsskólar. Aðsókn var góð en um 17.500 manns sóttu viðburðinn og þar af 9.500 grunnskólanemendur í 9. og 10. bekk. Um 200 manns voru við ýmsa vinnu á mótinu og sjálfboðaliðar unnu hátt í 1.750 klukkustundir við viðburðinn.
Tveir verkefnastjórar á vegum Iðunnar höfðu yfirumsjón með skipulagningu Minnar framtíðar og unnu í samráði við framkvæmdastjórn viðburðarins sem í situr fagfólk frá fagfélögum, mennta- og barnamálaráðuneyti, Verkiðn, SI og Tækniskólanum. Leiðtogar faggreina hjá Iðunni komu einnig að utanumhaldi og skipulagi keppni sinna greina.
Iðan fræðslusetur
Vatnagarðar 20
104 Reykjavík
KT. 551203 - 2980