Þjónusta
Iðan fræðslusetur veitir margs konar þjónustu sem snýr að námi og störfum fólks. Má þar nefna náms- og starfsráðgjöf, raunfærnimat, mat og viðurkenningu á erlendu námi og framkvæmd sveinsprófa.

Náms- og starfsráðgjöf
Náms- og starfsráðgjöf er boðin einstaklingum að kostnaðarlausu. Verkefni náms- og starfsráðgjafa Iðunnar eru aðallega raunfærnimat, almenn náms- og starfsráðgjöf, sérúrræði í sveinsprófum og mat og viðurkenning á erlendu starfsnámi.
Raunfærnimat
Á starfsárinu fóru 180 einstaklingar í raunfærnimat hjá Iðunni í 20 greinum sem er örlítil fækkun frá árinu á undan. Fjöldi metinna eininga var 7015 sem eru heldur færri einingar en fyrri starfsár en helgast það af því að ekki fer lengur fram raunfærnimat á vinnustaðaþætti. Fjöldi ráðgjafaviðtala á árinu var 1672 og fjöldi umsagna um mat og viðurkenningu á erlendu starfsnámi var 93.
Verkefni Nemastofu atvinnulífsins 2024-2025
Í takt við tilgang og markmið félagsins voru verkefni ársins; að stuðla að fjölgun faglærðs fólks í atvinnulífi; að fjölga nemum og námstækifærum í iðnnámi; að styðja við og fjölga fyrirtækjum sem bjóða iðnnemum vinnustaðanám og fl. Verkefni félagsins eru einnig að þróast en Nemastofa og mennta- og barnamálaráðuneytið gerðu með sér samning á árinu til þriggja ára sem kveður á um að fjölga konum í karllægum iðngreinum og efla vinnustaðanám í iðngreinum.
Verkefni Nemastofu atvinnulífsins er að fjölga fyrirtækjum sem bjóða iðnnemum vinnustaðanám og á tímabilinu skráði Nemastofa um 86% fyrirtækja sem sóttu um nemaleyfi í umsóknargátt MMS. Hélt samtals 24 kynningar og fræðslufundi um vinnustaðanám með samtals 378 þátttakendum og heimsótti 24 iðnfyrirtæki sem eru með nema í vinnustaðanámi.
Á árinu 2025 hlutu fyrirtækin Brimborg, Kjarnafæði Norðlenska og Securitas viðurkenningu sem Fyrirmyndafyrirtæki Nemastofu atvinnulífsins.Iðnnám er í mikilli sókn
Nemastofa atvinnulífsins tekur saman tölfræðiupplýsingar um iðnnám s.s um heildarfjölda iðnnema í framhaldsskólum, um virkar ferilbækur í öllum iðngreinum, um fjölda fyrirtækja sem bjóða vinnustaðanám, fjölda nýsveina á ári og fl. Iðnnemum hefur fjölgað umtalsvert á síðustu misserum og eins hefur fjöldi þeirra sem ljúka sveinsprófi aukist verulega. Á árinu 2024 luku samtals 920 iðnnemar sveinsprófi. Á fyrstu sjö mánuðum ársins 2025 hafa samtals 820 lokið sveinprófi. Á árinu 2025 mun einn fjölmennasti hópur iðnnema ljúka sveinsprófi frá upphafi.
Nemastofa veitir fyrirtækjum sem hafa staðið vel að þjálfun og kennslu iðnnema á vinnustað sérstaka viðurkenningu. Á árinu 2025 hlutu fyrirtækin Brimborg, Kjarnafæði Norðlenska og Securitas viðurkenningu sem Fyrirmyndafyrirtæki Nemastofu atvinnulífsins.

Öryggisskóli iðnaðarins frá hugmynd að veruleika
Öryggisskóli iðnaðarins var formlega stofnaður þann 1. febrúar 2025. Markmið skólans er að efla öryggismenningu og í byrjun verður stefnan sett á öryggismenningu í byggingariðnaði.
Fyrstu skrefin fólust í ítarlegri þarfagreiningu til að fá skýra mynd af stöðu mála og reynslu beint úr atvinnulífinu.
Í framhaldi voru mótuð skýr markmið um að byggja upp öfluga öryggismenningu og hanna námsefni og kennsluaðferðir skólans með tilliti til þess. Til að öðlast dýpri innsýn var farið í námsferðir til Óslóar, Helsinki og Stokkhólms. Markmið ferðanna var að öðlast betri þekkingu á öryggismenningu og nálgun í kennslu og þjálfun í þessum löndum. Niðurstaðan var að öryggismenning byggist á raunverulegri verklegri reynslu, opnu samtali, ábyrgð stjórnenda auk markvissrar fræðslu til starfsfólks.
Undirbúningur fyrir að koma starfsemi skólans af stað er nú í fullum gangi. Unnið er því að finna staðsetningu fyrir útisvæði til verklegrar nálgunar sem og rými fyrir fyrirlestra og umræður. Fyrstu námskeið á vegum skólans munu fara fram á Kríunesi haustið 2025, þar sem áherslan er á stjórnendur. Á sama tíma er unnið að gerð vefsíðu, hugað að markaðsstarfi og unnið að umsókn um viðurkenningu Öryggisskólans sem fræðsluaðila.
Sveinspróf
Iðan sér um framkvæmd sveinsprófa og veitir sveinsprófsnefndum 28 löggiltra iðngreina þjónustu með skráningu nemenda í prófin, undirbúningi prófa og aðstoð við gerð verklagsreglna um framkvæmd prófanna. Á tímabilinu 1. júlí 2024 – 30. júní 2025 þreyttu samtals 797 nemendur sveinspróf í þeim iðngreinum sem Iðan sinnir.
Sérúrræði í sveinsprófi
Iðan býður upp á sérúrræði í sveinsprófum fyrir þá einstaklinga sem búa við fötlun eða aðra hömlun sem hindrar þá í námi. Sérúrræðin geta falist í lengri próftíma, stærra letri á prófblöðum og munnlegum prófum.
Fjöldi sveinsprófstaka
Staðfestir námssamningar
Iðan fræðslusetur
Vatnagarðar 20
104 Reykjavík
KT. 551203 - 2980