Bílgreinar

Rafbílanámskeið njóta áfram góðrar aðsóknar og eru orðin kjarni námskeiðsframboðs bílgreina. Þörfin fyrir góða þekkingu á rafmagni í tengslum við rafmagnsbíla fer sífellt vaxandi, og því er einnig lögð aukin áhersla á almenn rafmagnsnámskeið.

Gott samstarf við bílaumboð

Samstarf við bílaumboð hefur verið mjög gott og námskeiðahald þeim tengt hefur aukist verulega. Bílaumboðin nýta sér aðstöðu Iðunnar og í ákveðnum tilfellum sér Iðan alfarið um námskeiðahald. Þetta samstarf hefur styrkt stöðu Iðunnar gagnvart tæknimönnum og veitt aðgang að upplýsingum frá framleiðendum, sem nýtist vel við þróun nýrra námskeiða.

Erlend sérfræðiþekking er mikilvæg í fræðsluframboðinu. Sérfræðingar frá TEXA og ProMoto Europe í Bretlandi héldu námskeið um meðhöndlun kælimiðla. Auk þess voru haldin sérhæfð námskeið um rafbíla sem hlutu mjög jákvæðar undirtektir þátttakenda.
Á vormánuðum hófst undirbúningur fyrir þátttöku bílgreina í EuroSkills í fyrsta sinn. Ákveðið var að keppa í bifvélavirkjun og gátu allir nemar í faginu undir 25 ára aldri sótt um þátttöku. Alls bárust sjö umsóknir og að loknum viðtölum og prófum var einn keppandi valinn til að keppa fyrir hönd Íslands í Danmörku..